Gullinsnið

Tuesday, March 31, 2009

Smáskammtafærslur

Tekin hefur verið upp sú ritstjórnarstefna að fjölga færslum en stytta, og skera texta jafnvel við nögl. Við vindum okkur því beint í eina fallega mynd af mæðgum heima í sófa í góðu stuði.

Hér er Vala að kubba með nútímalist í Hafnarhúsinu einn sunnudaginn í mars.

En hér er hún nýkomin heim eftir mjög viðburðaríkan öskudag í skólanum.

Að síðustu er Sigrún Ásta sofandi stóru systur sinni til samlætis.

Tuesday, February 24, 2009

Systrabragur

Jæja, þá er komin fjögurra mánaða reynsla á Sigrúnu Ástu og ekki annað hægt að segja en að allir séu ljómandi af gleði. Við hefjum þennan myndapakka á örskoti af snótinni ungu með ömmu Völu, sem á einmitt afmæli í dag. Til hamingju með það!

Hér eru svo systurnar báðar alsælar í fangi afa Björns.

Valgerður Birna hefur sinnt stórusysturhlutverkinu framar björtustu vonum. Hér er hún að lesa fyrir systur sína þar sem hún liggur á leikteppinu.

Töluverður svipur er kominn á Ástu og þykir hún ekki allsendis ólík móður sinni. Því fagni allir góðir menn. Hér eru mæðgurnar afslappaðar í eins árs afmæli Heiðu Máneyjar um helgina.

Þar var Vala Birna fjallhress og birtum við eina af fáum óhreyfðum myndum sem náðust af henni við það tækifæri.

Sama dag leit fjölskyldan við í Brekkutúni og fékk þá stóri Svenni upplagt tækifæri til að sýna einstakt lag sitt á brosandi börnum.

Að síðustu er ein rólegheitamynd úr stofunni heima; pabbi glápir á sjónvarpið en Sigrún Ásta heldur augunum á myndavélinni. Góðar stundir!

Tuesday, January 06, 2009

Gleðilegt ár!

Komið sælir, lesendur góðir, og gleðilegt ár. Vegna fjölda áskorana hafa umsjónarmenn síðunnar heitið sjálfum sér því að fjölga færslum, þótt myndirnar verði ef til vill færri í hvert sinn. Að þessu sinni birtist örskammtur af Sigrúnu Ástu, sem gegnir nafninu "litla systir" æ sjaldnar. Hér er hún í fangi móður sinnar í jóladagsboði hjá afa og ömmu í Árbænum. Steingerður frænka hennar, sem átti stjörnuleik þetta kvöld í elju sinni við að leika við Valgerði Birnu stóru systur, er til vinstri.

Hér fær kollurinn á afa Teiti að fljóta með, þar sem hann spjallar við Ástu í stiganum sama kvöld. Þau voru ekki sérstaklega fýluleg frekar en venjulega.

Löngu er kominn tími til að skrásetja þetta bros sem Sigrún Ásta skartar oftast nær. Faðir hennar þvælist fyrir, rúinn um haus en órakaður í framan.

Og ein fislétt svefnmynd í lokin. Við minnum aftur á póstlistann ef fólk vill fá tilkynningar um færslur hér á síðunni, en netfangið er gullinsnid@gmail.com. Lifið heil á nýju ári!

Monday, December 15, 2008

Aðventan

Komið sælir, lesendur góðir og velunnarar. Sigrún Ásta og Valgerður Birna bjóða ykkur stærsta skammtinn til þessa af myndum af sér og vona að þið fyrirgefið misjöfn myndgæði, sem skrifast alfarið á takmarkaða færni föður þeirra. Við hefjum yfirferðina á Ástu á púðanum sem hún hefur verið í snertingu við margar klukkustundir á dag í þá rétt tæpu tvo mánuði sem liðnir eru síðan hún fæddist.

Síðustu vikurnar hefur hún lengst og þyngst, en ekki síst hefur hún mannast ótrúlega og tekið á sig mikinn karakter. Hún er með eindæmum mannblendin og félagslynd og alltaf er stutt í brosið, nema helst þegar flassljós myndavélanna dynja á henni. Hér hefur þó tekist að festa gleðina á filmu (eða harðan disk).

Vala er blíð og góð við litlu systur sína og leggur mikið af mörkum til að aðstoða. Hér situr hún á gólfinu til að gæta Sigrúnar Ástu meðan þær horfa á sjónvarpið.

Valgerður Birna er margslungin persóna og lætur ekki stjórnast af staðalmyndum. Hér er hún íklædd prinsessukjól að stelast í að lesa Kvæðakver eftir Halldór Laxness, sem hún segir að sé "gott fyrir börn". Það er ekki annað hægt en að taka undir það.

Á annan sunnudag í aðventu fór Vala í spariklæðnað og sýndi sitt sérstaka ljósmyndabros í stofunni heima.

Hér er hún komin í afmæli til Kolfinnu, en nafn hinnar fyrirsætunnar er umsjónarmönnum síðunnar því miður ekki kunnugt. Eftir afmælisboðið var farið á jólaball, þar sem stuðið var þvílíkt að engar myndir náðust.

Nokkrum dögum fyrr hafði verið piparkökumálningardagur á leikskólanum og tók Vala Birna þátt af mikilli einbeitingu.

En víkjum aftur að Sigrúnu Ástu. Hér er hún á öxl móður sinnar að sinna eldhússtörfum.

Og hér er brosið góða prufukeyrt á leikteppinu sem hún fékk hjá systur sinni.

Fjölskyldan fór í sína fyrstu fjögurra manna gönguferð um daginn í heldur hráslagalegu veðri og hressti sig á kaffistofunni á Kjarvalsstöðum eftir listskoðun. Vala var ekki nísk á veitingar af diski sínum frekar en fyrri daginn.

Oftar heldur fólk sig þó inni við og sinnir menningarlegum áhugamálum, svo sem píanóleik.

Nú, eða trumbuslætti.

Að síðustu er hér ein pollahoppsmynd frá fyrrnefndri gönguferð. Systurnar vilja nota tækifærið til að óska öllum ættingjum og vinum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Sjáumst heil!
P.S. Þeir sem vilja fá tilkynningu í tölvupósti þegar nýjar myndir eru settar inn á þessa síðu geta sent póst á gullinsnid@gmail.com og verður þeim þá bætt á sérstakan póstlista.

Thursday, November 20, 2008

Nú er hún Sigrún Ásta nefnd og komin á ról

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að snótin unga sem kvaddi sér hljóðs þegar vika var eftir af haustmánuði hefur hlotið nafnið Sigrún Ásta. Hér eru engu að síður örfáar myndir til að minna á hana og rennum við úr hlaði með tækifærisportretti af henni í fangi Valgerðar Birnu stóru systur sinnar, sem er alsæl eins og skiljanlegt er að eiga svona fína litlu systur.

Gleðin er að sjálfsögðu gagnkvæm.

Þá eru vinsældirnar töluverðar hjá afa Birni og allt í lagi að splæsa á hann einu óheftu brosi, þótt hann fái ekki mikið pláss á sjálfri myndinni.

Nafnið var tilkynnt í fámennu en góðmennu kaffiboði í byrjun mánaðar og svo fékk fjölskyldan að sitja aðeins fyrir.

Ört bætist í sarpinn "Vala að sýna litlu systur" og fær þetta sýnishorn að fljóta hér með. Það er þó aldrei að vita nema þær eigi eftir að eiga fleiri stundir saman fyrir framan spegilinn.

Sigrún Ásta er ekki mikil svefnpurka og hafa foreldrarnir lítt harmað þær stundir þegar hún hefur fengið sér smá blund. Þá gefst líka ágætt tækifæri til að skoða andlitsdrættina betur og spá í genasamsetningu alla. Dæmi nú hver sem vill.

Að lokum er hér svo ein mynd þar sem Vala Birna sýnir röðunarhæfileika sína og tannkremsbros í senn. "Mitt næsta bragð er að raða þessum klósettpappírsrúllum upp, án þess að þær detti." Góðar stundir.

Saturday, October 25, 2008

Fyrsta vikan að baki

Nú er litla systir orðin rúmlega viku gömul og braggast eins og best verður á kosið. Hér er hún fimm daga gömul í vöggunni sinni.

Þessi mynd tók afi Teitur á fyrsta degi og má sjá að strax þá var kominn heilmikill svipur á stelpuna.

Hér er amma Vala með nýjasta ömmubarnið sjö daga gamalt.

Og hér eru svo mæðgurnar allar þrjár; litla systir nýbúin að borða og stóra systir nýkomin úr baði.

Saturday, October 18, 2008

Litla systir stígur fram

Þessi litla stúlka fæddist á Landspítalanum föstudaginn 17. október klukkan 11.48. Fæðingin gekk fljótt og vel og mældist sú nýfædda fjórtán og hálf mörk og 51 sentimetri. Næsta sólarhringnum eyddi hún í Hreiðrinu ásamt himinsælum foreldrum sínum, meðan stóra systir undi sér í Árbænum hjá ömmu sinni og afa.

Daginn eftir var fjölskyldan sameinuð heima og fór strax vel á með systrunum.

Meðal útvalinna gesta þann dag var Systa frænka, sem var ágætlega sátt við þessa nýju frænku sína.
Stórar systur hafa þá skyldu að fylgjast vel með því sem þær litlu gera...

...og ef sambandið er gott bjóða þær jafnvel sína dýrmætustu gripi. Báðar biðja systurnar svo að heilsa ættingjum og öðrum velunnurum nær og fjær.