Gullinsnið

Friday, August 31, 2007

Lífið er róló

Myndirnar halda áfram að hrúgast inn. Hér er Valgerður Birna í hlutverki gestafyrirlesara á leikskólanum Drafnarborg í Vesturbænum...

...með Gyðu vinkonu sinni sem býr í næsta nágrenni.

Rólutæknin hefur verið fínslípuð í sumar og nú er hægt að gefa vel í án jafnvægisaðstoðar.

Reyniberin í garðinum eru fögur á að líta en Vala Birna veit sem er að það er miklu betra að hafa bara kex með í nesti þegar hún fer út í fótbolta.

Svo hringir hún gjarnan í ömmu eða afa úr bílasímanum sínum til að segja frá afrekum dagsins.

Tuesday, August 28, 2007

Frá vori til síðsumars

Eitt mesta sportið hjá Valgerði Birnu síðustu vikurnar hefur verið að hoppa í hinum fjölmörgu pollum Hlíðahverfis. Þessi mynd var tekin 23. ágúst sem hluti af retróspektívi.

Hinn 28. júlí bættist þessi mynd í hinn myndarlega sarp "Hvíla lúin bein".

Á róluvelli í Norðurmýri, 8. júlí.

30. júní var mikill góðviðrisdagur og gekk þá Vala Birna niður í miðbæ með foreldrum sínum. Svo sat hún fyrir í Hljómskálagarðinum á leiðinni til baka.

Tveimur dögum fyrr hafði hún staðið eins og herforingi í Víkurfjöru með afa Björn, tíkina Sunnu og Hraundranga í baksýn.

24. júní var þessi mynd tekin, en þá stóð sú tíska enn afar hátt að troða sér í allt.

Kaffi með rúgbrauði í Gamla bænum er skylda í Mývatnssveitarferðum, enda er staðurinn eitt af uppáhaldskaffihúsum Völu og er hún þó kaffihúsafróð.

Við gervigígana við Skútustaði var margt skemmtilegt að skoða og Vala Birna hristi mýið af sér eins og ekkert væri.

Samt hafði hún gefið sér tíma í Álftagerði til að máta skýlu, með bíllyklana í hendinni. 19. júní.

Í rólóbúðinni, 2. júní.
Heima er gott að vera. Svona var það 7. maí.

Snemma beygist krókurinn. Lát alnetið vera til vitnis um að 30. apríl 2007 var Valgerður Birna byrjuð að ganga í störf föður síns á Fréttablaðinu, fimmtán mánaða gömul.

Sunday, August 26, 2007

Á gönguför í borginni

Valgerður Birna er mikill fagurkeri og veit sem er að þótt erill dagsins sé allt um kring borgar það sig að nema staðar og skoða blómin.

Stundum er líka gott að setjast bara niður. Þessi mynd, sem tekin er í vesturhluta Drápuhlíðar, er ein af fjölmörgum í flokknum "Hvíla lúin bein" sem bætist óðum í þessar vikurnar. Foreldrarnir bæta líklega fleiri myndum á netið fljótlega en þangað til er um að gera að nýta það sem eftir er af sumrinu. Allir út!