Gullinsnið

Thursday, November 20, 2008

Nú er hún Sigrún Ásta nefnd og komin á ról

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að snótin unga sem kvaddi sér hljóðs þegar vika var eftir af haustmánuði hefur hlotið nafnið Sigrún Ásta. Hér eru engu að síður örfáar myndir til að minna á hana og rennum við úr hlaði með tækifærisportretti af henni í fangi Valgerðar Birnu stóru systur sinnar, sem er alsæl eins og skiljanlegt er að eiga svona fína litlu systur.

Gleðin er að sjálfsögðu gagnkvæm.

Þá eru vinsældirnar töluverðar hjá afa Birni og allt í lagi að splæsa á hann einu óheftu brosi, þótt hann fái ekki mikið pláss á sjálfri myndinni.

Nafnið var tilkynnt í fámennu en góðmennu kaffiboði í byrjun mánaðar og svo fékk fjölskyldan að sitja aðeins fyrir.

Ört bætist í sarpinn "Vala að sýna litlu systur" og fær þetta sýnishorn að fljóta hér með. Það er þó aldrei að vita nema þær eigi eftir að eiga fleiri stundir saman fyrir framan spegilinn.

Sigrún Ásta er ekki mikil svefnpurka og hafa foreldrarnir lítt harmað þær stundir þegar hún hefur fengið sér smá blund. Þá gefst líka ágætt tækifæri til að skoða andlitsdrættina betur og spá í genasamsetningu alla. Dæmi nú hver sem vill.

Að lokum er hér svo ein mynd þar sem Vala Birna sýnir röðunarhæfileika sína og tannkremsbros í senn. "Mitt næsta bragð er að raða þessum klósettpappírsrúllum upp, án þess að þær detti." Góðar stundir.