Gullinsnið

Sunday, April 16, 2006

Hátíðar- og ferðamyndir

Lífið er frábært. Hér er Vala Birna í heimsókn hjá Sirrý frænku í Brekkutúni en það er stóri Svenni sem á heiðurinn af því að kalla fram brosið. Sigrún lýtur höfði í andakt.

Í heimsókn í Eyktarás var þessari mynd smellt af vísitölufjölskyldunni.


Vala Birna undi sér vel með stuðboltunum minnstu frændum sínum og sátu þau fyrir í gríð og erg.


Í fyrsta sinn hittust þessi frændsystkin öll og var mynduð sjö arma stjarna. Talið réttsælis frá vinstri: Valgerður Birna, Óðinn, Askur Freyr, Iðunn, Ás Teitur, Urður og Eir.


Milli heimsókna á Norðurlandi um páskana var gripið í Draumalandið - Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð eftir Andra Snæ Magnason. Það er afar holl lesning fyrir þá sem landið munu byggja.


Á Húsavík hitti Vala Birna herramennina Tuma, 8 ára, og Inga, 2 ára, sem tóku henni með kostum og kynjum enda barnvænir mjög.

Í heimsókn í bruggverksmiðju Coors í Golden í Colorado fyrir tuttugu árum síðan festi faðir Völu Birnu kaup á forláta bjórdósaeinangrara sem viðheldur svalleika mjaðarins á heitum sumardögum. Nú er einangrarinn meira notaður til að halda hita á mjólk á ferðalögum, en hugmyndir eru í loftinu um að selja bjórrisanum bandaríska þessa mynd til auglýsinga. Þetta er jú bara lite bjór.

Viktoría kom í heimsókn um daginn og varð þeim V-stúlkum vel til vina.

Sumir eru svo heppnir að eiga langömmu á Akureyri sem býður manni í heimsókn.

Sama langamma heklaði teppið á þessari mynd. Græni liturinn í bolnum virðist laða fram rauða háralitinn, sem er hins vegar á einhverju undanhaldi þessa dagana. Nýjustu spár benda til dökkskolleits hárs með rauðu ívafi.

Hérna var eitthvað verið að fíflast með að setja húfu vitlaust á haus og svo gerðar æfingar í að reisa sig upp. Sem var lítið mál.

Grunninn að rokkvænu uppeldi verður að leggja snemma, og árangurinn lætur þá ekki á sér standa.

Gott ef þetta er ekki í grunninn sama pósan, bara í öðrum landsfjórðungi.

Afi Björn kann réttu tökin, en það er alltaf nóg að gerast til að athyglin flökti.

Heima er best.