Gullinsnið

Wednesday, July 26, 2006

Á mánudaginn lagði Valgerður Birna land undir fót ásamt foreldrum sínum og var kúrsinn tekinn á Snæfellsnes. Eftir góðan bíltúr var staðar numið í Stykkishólmi og sest við borð á sólpalli veitingastaðarins Fimm fiska. Og allir voru þá í rosa stuði.


Enda gaman á Stykkishólmi í blíðskaparveðri.

Fjölskyldan keyrði síðan að Helgafelli og gekk upp á fjallið. Sá sem gerir það í fyrsta sinn fær ósk uppfyllta ef hann/hún segir ekki orð og lítur ekki um öxl fyrr en toppnum er náð. Þrjár óskir fengust, þar sem Vala kann ekki alveg að segja orð ennþá. Hún þagði nú samt ekki alveg meðan hún fiktaði í lubbanum á pabba sínum.

Frá Stykkishólmi var keyrt vestur í Grundarfjörð og yfir Fróðárheiði, þannig að komið var niður á sunnanvert Snæfellsnesið. Gististaðurinn var Hótel Hellnar, sem fær bestu meðmæli fyrir þægilegt umhverfi og góða þjónustu. Þar borðaði fjölskyldan kvöldmat og Vala Birna heillaði alla nærstadda upp úr skónum.

Gíraffinn fékk að vera með við kvöldverðarborðið, enda þarf fólk undir eins árs aldri svolitla afþreyingu í bland við matinn. Kannski gíraffasteik myndi sinna báðum þessum þörfum?


Það er nokkuð ljóst að Vala kann vel við sig á hótelum. Hér er hún inni á herbergi.
Næsta dag gekk fjölskyldan tveggja og hálfs kílómetra vegalengd yfir Hellnahraun að Arnarstapa, þar sem þessi myndarlegi gatklettur fékk að vera með á mynd. Vala var þá nývöknuð eftir góðan lúr á göngunni.

Þegar komið var í Arnarstapa var sest að snæðingi og þar tók Vala Birna sína fyrstu mynd. Svona lítur heimurinn út frá hennar sjónarhorni.

Saturday, July 08, 2006

Barndómurinn

Svona er Vala: alltaf í stuði.

Og alltaf eru foreldrarnir jafn ánægðir með hana.

Sú nýbreytni hefur verið tekin upp í Drápuhlíð að hafa fasta matmálstíma í borðstofunni. Valgerður Birna bíður hér sallaróleg eftir matnum með bókasafnið í baksýn.

Vala Birna og foreldrar hennar hafa undanfarið verið í sínu fyrsta sumarfríi saman og fóru í vikuferð til Akureyrar og Mývatnssveitar. Langamma Sísí bauð í kaffi og urðu fagnaðarfundir.

Meðal allra tvíburastrákanna sem eru á sama aldri og Vala Birna eru frændurnir Askur Freyr og Ás Teitur. Vala og Ás léku sér saman fyrir norðan með krókódíl í aukahlutverki.

Í Mývatnssveit bættist Gamli bærinn í hið veglega safn veitingastaða og kaffihúsa sem Valgerður Birna hefur heiðrað með nærveru sinni.

Þar hugkvæmdist föður hennar sú brella að halda henni ánægðri með því að gefa henni veski til að naga.
Það er ekki við öðru að búast en að Völunum komi vel saman.

Mæðgurnar eiga nú þegar glæsilegan sameiginlegan íþróttaferil að baki. Þessi mynd var tekin 10. júní þegar þær fóru saman uppáklæddar í Kvennahlaupið en tveimur vikum síðar tóku þær Mývatnsmaraþonið með trompi. Þess má geta að myndin að ofan hefur borist framámönnum í bandarískum kvikmyndaiðnaði og þegar er komið tilboð um að leika hina sómakæru Bree í væntanlegri kvikmynd sem byggð verður á sjónvarpsþáttunum Desperate Housewives.

Þær voru líka allhressar á leiðinni á Víkingahátíð á þjóðhátíðardaginn.


Smávægileg ferðafýla sem gerði vart við sig á fyrstu metrunum á fyrstu vikunum er löngu horfin og núna er Vala Birna athyglin uppmáluð á ferðalögum, og alltaf spennt.

Wednesday, July 05, 2006

Allt á hvolfi

Nú er blessaður bloggerinn að stríða okkur og allt á hvolfi. Nokkrar myndir, gjörið þið svo vel.

Þegar stælgæjar á borð við Arnar Má mæta á svæðið, svartir af sól og köttaðir, er ekki annað hægt en að vera í stuði.

Nýjasta sportið er að slafra í sig vatn. Stútkannan hefur rokið upp vinsældalistann en í dagsins önn er oft gripið í næsta glas og tekinn góður slurkur.

Nýverið gerði fjölskyldan góða ferð niður með Miklubraut/Hringbraut og á Þjóðminjasafnið. Þar er ljómandi fín kaffistofa þar sem Vala var skorðuð í stól og fékk síðan að bjástra við borðið. Hún var í sposkara lagi með kaffinu.

Að kaffidrykkjunni lokinni var tími til kominn að skoða sjálft safnið, sem olli ekki vonbrigðum. Vala Birna prófaði að sitja í regnhlífarkerru í fyrsta sinn og var mjög sátt.

Á leiðinni heim að norðan var stoppað í smá stund í Galtanesi, þar sem Andri frændi geymir töluverðan frændgarð.

Óðinn (3 ára) sýndi þar hvaða mann hann hefur að geyma og lánaði Völu dýrmætasta hlut sem hann á, þennan græna traktor. Því var tekið fagnandi.

Vala Birna hitti Ásu frænku sína eina kvöldstund fyrir norðan og var fögnuðurinn svakalegur.

Hérna eru feðginin að gera sig klár fyrir reglubundna ferð á Bláu könnuna (Le pichet bleu) á Akureyri. Álfabúningurinn hefur þjónað vel en fer að verða ansi lítill.

Við ljúkum þessum skammti með mynd af því augnabliki þegar Vala velti sér fyrst á magann og kom báðum höndunum fyrir sig um leið. Hún hafði ekkert fyrir því, eins og kæruleysislegur svipurinn ber með sér.